Siðareglur félagsráðgjafa

Tilgangur.

Grundvöllur félagsráðgjafar er virðing fyrir manngildi og sérstöðu hvers einstaklings og trú á getu hans til að nýta hæfileika sína til fullnustu.
Markmið félagsráðgjafar er að vinna að lausn félagslegra og persónulegra vandamála og sporna við félagslegu ranglæti.
Félagsráðgjafi vinnur gegn mannréttindabrotum hvar svo sem þau eiga sér stað.

Frumskyldur.

1. Félagsráðgjafi rækir starf sitt án manngreinarálits og virðir réttindi hverrar manneskju.
Félagsráðgjafi kemur fram við skjólstæðing af heiðarleika, virðingu og leitast við að byggja upp gagnkvæmt traust.

2. Félagsráðgjafi upplýsir skjólstæðing um réttindi hans og skyldur, einnig um úrræði og hjálparmöguleika. Félagsráðgjafi gerir sér far um að virða og verja rétt hvers einstaklings til einkalífs og sjálfsákvörðunarréttar, svo fremi að það valdi öðrum ekki skaða. Geti skjólstæðingur ekki sjálfur gætt hagsmuna sinna, ber félagsráðgjafa að gæta þess að réttur hans sé ekki fyrir borð borinn.

3. Félagsráðgjafi gætir trúnaðar um þau mál sem hann verður áskynja í starfi sínu. Undantekningu frá þagnarskyldu má einungis gera samkvæmt lagaboði eða af brýnni nauðsyn.

4. Félagsráðgjafi gerir skjólstæðingi grein fyrir trúnaðarskyldu, upplýsingaöflun, skráningu máls og hvernig farið er með gögn. Félagsráðgjafi sér um að einstaklingur eigi jafnan aðgang að því sem skráð er í máli hans.

5. Félagsráðgjafi aflar ekki upplýsinga um skjólstæðing frá öðrum án samþykkis hans, nema þar sem lagaskylda býður að það sé gert. Þá skal einungis afla þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru til að vinna að málinu. Sé tekið upp á segulband eða myndband verður að afla skriflegs samþykkis
skjólstæðings. Heimilt er að víkja frá trúnaðarskyldu, ef skjólstæðingur fer skriflega fram á að ákveðin persóna eða stofnun fái upplýsingar.

6. Ef skjólstæðingi er gert að þiggja þjónustu félagsráðgjafa gegn vilja sínum skal félagsráðgjafi upplýsa hann um hver réttur hans er og útskýra markmið vinnu sinnar og afleiðingar, eftir því sem við verður komið.

7. Félagsráðgjafi notar ekki störf og fagþekkingu sína til að skaða, undiroka eða kúga skjólstæðing, né á nokkurn hátt notfæra sér að hann á undir högg að sækja. Félagsráðgjafi notfærir sér ekki tengsl við skjólstæðing sjálfum sér til persónulegs eða faglegs framdráttar.

8. Félagsráðgjafi stofnar ekki til eða á í kynferðislegu sambandi við skjólstæðing sinn eða annan þann sem er honum háður vegna starfs hans, t.d. nemanda.

Ábyrgðar- og hæfnisskyldur.

9. Félagsráðgjafi ber ábyrgð á eigin hæfni og þeim störfum sem hann innir af hendi í samræmi við það, sem starfsheiti hans felur í sér samkvæmt lögum. Félagsráðgjafi stundar fræðslu- og rannsóknarstörf.

10. Félagsráðgjafi stundar starf sitt með faglega heildarsýn að leiðarljósi og byggir á fræðilegum kenningum, niðurstöðum rannsókna og starfsreynslu í félagsráðgjöf. Félagsráðgjafi viðheldur þekkingu sinni og endurnýjar hana. Hann fylgist vel með nýjungum í starfi og uppfyllir þau skilyrði sem gerð eru til starfsins á hverjum tíma.

11. Félagsráðgjafi hlýðir samvisku sinni og sannfæringu. Félagsráðgjafi getur synjað að framkvæma félagsráðgjafaverk, sem hann treystir sér ekki til að bera faglega ábyrgð á.

12. Félagsráðgjafi á frumkvæði að því að þróa nýjar hugmyndir í félagsráðgjöf og að hrinda þeim í framkvæmd.
Félagsráðgjafi skal í ræðu og riti vera málefnalegur og nákvæmur. Hann reynir að tryggja eins og mögulegt er, að það sem hann lætur frá sér fara, bæði skriflegt og munnlegt, misskiljist ekki eða mistúlkist öðrum til miska.

13. Félagsráðgjafi framkvæmir ekki félagsráðgjafaverk undir áhrifum áfengis, lyfja eða annarra efna sem slæva dómgreind hans og athygli.

Félagslegar skyldur.

14. Félagsráðgjafi kynnir menntun sína og störf með tilhlýðilegum hætti. Félagsráðgjafi skýrir frá því þegar hann kemur fram opinberlega hvort hann kemur fram fyrir eigin hönd sem einstaklingur, sem fagmanneskja, fyrir hönd fagfélags síns eða þá stofnun sem hann starfar við.

15. Félagsráðgjafi er ávallt meðvitaður um markmið þeirrar starfsemi sem hann tekur þátt í og vinnur á grundvelli gildandi laga, reglna og fyrirmæla, stríði það ekki gegn siðfræði félagsráðgjafar.

16. Félagsráðgjafi miðlar þekkingu sinni sem víðast, til annarra félagsráðgjafa, félagsráðgjafanema, annarra fagmanna og alls almennings.

17. Félagsráðgjafi vinnur að því að skapa traust almennings á félagsráðgjöf og faglegri hæfni félagsráðgjafa.

Systur/bróðurlegar skyldur

18. Félagsráðgjafi gerir ekkert í starfi sem rýrir orðstír stéttarinnar eða félagsráðgjafar sem starfs- og fræðigreinar.

19. Félagsráðgjafi virðir hæfni, skyldur og ábyrgð annarra félagsráðgjafa og annarra fagstétta ásamt því að treysta annarri fagþekkingu þegar það á við. Komi upp faglegur ágreiningur skal félagsráðgjafi reyna að miðla málum svo að niðurstaða fáist með hagsmuni skjólstæðinga að leiðarljósi.

20. Félagsráðgjafi sem veit um brot starfsfélaga síns gegn siðareglum félagsráðgjafa bregst við með ábendingu, umræðu og stuðningi við hann, svo leiðrétta megi. Beri það ekki árangur skal málinu vísað til siðanefndar Stéttarfélags íslenskra félagsráðgjafa.